Forsíđa   


Draumar og draumráðningar

 

Draumar hafa vissulega áhrif í vökunni og á líf okkar almennt séð en við höfum þó fáar rannsóknir sem styðja þessa staðhæfingu. Gallupkönnun Skuggsjár varpar ljósi á þetta en í henni sögðust yfir 70% svarenda trúa því að draumar hefðu merkingu fyrir sig. Draumar væri sem sé ekki hægt að afgreiða sem einbert bull. Reynsla dreymenda af draumum sínum og hvernig þeim leið styður þessa skoðun og kemur vel fram í könnunni en í henni segja dreymendur frá ótrúlega fjölbreyttu inntaki og þemum/stefum í draumum sínum. Fólk dreymir alls kyns form og hluti, athafnir og tilfinningar.


Sumt sem gerist í draumum er sambærilegt um heim allan, til dæmis er tilfinningin fyrir því að detta eða fljúga mjög algeng án tillits til þess hver menningarlegur eða félagslegur bakgrunnur dreymandans er. En táknkerfi margra annarra þátta, svo sem persóna eða staða, verður einstaklingsbundið og fer eftir reynslu hvers og eins og skilningi hans á lífinu og birtist í ólíkum draumum ólíkra  dreymenda.


Margar kenningar nútíma draumfræðinga leggjast eindregið gegn þröngum túlkunaraðferðum á draumum; fremur leggja þær áherslu á að sérhver túlkun sé byggð á raunveruleikanum í persónulegu lífi dreymandans. Skynheildarsálfræðingar á borð við French og Fromm líta á túlkun draums sem sambærilega við túlkun listarinnar og að við þessa túlkun beri manni að fylgja innsæi sínu og empatísku ímyndunarafli. Margar þessar kenningar s.s. þeirra Adler, French og Fromm byggja líkt og kenningar Freud á frjálsum hugrenningartengslum og þær reyna jafnframt að gefa tæmandi skýringu á öllum smáatriðum tiltekins draums.


Aðrir draumfræðingar eins og þeir Boss og Perls leggja hins vegar aðaláhersluna á tilfinningalega upplifun draumsins, þeir velta fyrir sér hvaða stíl viðkomandi lifi eftir í stað þess að velta draumtáknum of mikið fyrir sér. Perls telur einnig að túlkun drauma í anda Freud sé allt of vitræn gjörð og hvetur dreymandann til að tengja sig við sérhvert atriði draumsins eins og það væri element í eigin sjálfi dreymandans og þannig raunverulegt og góð leið til aukins persónuþroska og sjálfsþekkingar.

 

 

 

© 2007 Draumasetriđ Skuggsjá Hönnun Design EuropA